Lífið, heimurinn og allt saman

föstudagur, ágúst 31, 2012


Skjótt skiptast veður á lofti... Miklar hræringar á okkar unga manni (ekki mér, heldur þessum alveg yngsta)...
Víkingur er nefnilega búinn að vera hjá dagmömmum í eina viku... Aplögunin gengur mjög vel og allt í kei með það... Við Anna höfum samt alltaf verið spenntust fyrir að smella honum inná leikskóla (sóttum um þegar hann var 3 mánaða) en eins og margir vita þá er biðin í lengri kanntinum og komast flest börn á Reykjavíkursvæðinu vanalega ekki inná leikskóla fyrr en rétt fyrir fermingu...
Anna var líka búin að prófa nokkra einkarekna leiksskóla því þeir taka við börnum fyrr en aðrir... Á miðvikudag ákveður Anna að taka svona einn símarúnt á skólana aftur í nágreningu, til að kanna hvernig okkur stendur á biðlistum og sjá hvort eitthvað fari nú að losna í náinni framtíð, þá líklegast eftir áramót eða álíka... en viti menn... Það var að losna pláss á leiksskóla rétt hjá okkur og það 1. október...
Vá, við einstaklega glöð, en samt leiðinlegt að hann skilji svona fljótt við dagmömmurnar enda bara nú búinn með viku og aðlögunin farið vel fram... Við samt látum þær strax vita fimmtudagsmörgun að við förum með Víking annað í október því við erum samningabundin og það er svona mánaðar uppsagnarfrestur... Það gefur þeim líka meiri tíma til að finna barn til að taka plássið hans Víkings... Þær græja uppsögn á samningi fyrir okkur og við reiknum nú með að klári bara október hjá þeim...
En hvað gerist...? Þær fundu strax nýtt kríli sem vantar dagmömmu strax og í marga mánuði... Samkvæmt samningi er fyrsti mánuður bara prufumánuður fyrir alla þannig báðir aðillar (foreldar og dagmömmur) mega hætta gæslu með dags fyrirvara... og haldiði ekki að það hafi gerst... Þær slitu samvistum við okkur (enda er það í raun ekkert athugavert við það því þær þurfa að hafa öll pláss full sem lengst og þarna er komið barn en er ekkert að fara á næstunni)... en við bara bjuggumst ekkert við þessu...
Víkingur er semsagt gæslulaus fram að næstu mánaðarmótu því honum var sagt upp... Er það nú... Varla 16 mánaða og strax dömpað af tveimur dömum... Er ekki alltaf fall er fararheill...
Tímasetningin er ekki sú besta þar sem Anna var að byrja í fullu starfi og ég í þreföldu... Sem betur fer eftir hringingu í leikskólann sáu þau að þau gæti troðið honum inn eftir eina viku frekar en mánuð... Þannig nú þurfum bara ég og Anna að brúa þetta litla bil og þá er ungi herramaðurinn okkar kominn á leikskóla... Sko hann...
En samt... dömpað af tveimur... það getur bara batnað uppúr þessu...


fimmtudagur, ágúst 30, 2012


Mikið er maður kominn með leið á flóðinu af ruslpóst sem streymir inn um lúguna á hverjum degi... Manni líður eins og New Orleans á dögum fellibilsins Katrínu (liðin nógu mörg ár svo maður má gera Katrínu brandara (sérstaklega þar fellibylurinn Isaac fer nú hamförum og tekur athygglina)... og það er hægara sagt en gert að stöðva þetta streymi ("hægara = léttara" (ekki "hægara = "fljótlegra" því það væri bara ekki satt (það er hraðara sagt en gert)...
Þetta er nefnilega aragrúi af efni frá mörgum miðlum... og við erum þrjár íbúðir sem deilum einni lúgu... og engin í húsinu skoðar neitt af þessu... þannig eftir þrjá daga, þá þarf háskólagráðu í hástökki til að komast yfir hauginn sem safnast upp í anddyrinu...
En loksins einn morguninn fékk ég nóg... Ég sat þarna efst á Mt. Ruslpósti með háfjallaveiki þrátt fyrir að hafa eytt góðum tíma í grunnstöðvum á leið upp... Ég skrifaði póstinum tölvupóst (get with the 21st century guys) og fékk í staðinn svona "engan fjölpóst" límmiða á stærð við frímerki sem ég gat sett á lúguna... Sko þarna sýndi ég þeim í tvo heimana... Synd að hvorugur þessara heima var ruslpóstlaus því ennþá streymdi inn fréttarit ásamt tugum meðfylgjandi fylgiblaða og vörubæklina, enda ekki gæti það kallast ruslpóstur því þetta er geymt á milli ritaðra blaðsíðna með fréttum sem maður las á netinu nokkrum kvöldum áður...
Varð ég því að stíga næsta skref sem var að tala við Pósthúsið (sem er víst allt annað en Pósturinn (attack of the clones))... Þeir eru ekki með límmiða, en settu okkur hinsvegar á svona "persona non grata" lista þannig við hættum líka að fá allar sendingar frá þeim...
Hjúkkit... þá er þetta loksins búið... eða svo hélt ég...
Í morgun var aftur nokkur morgunblöð frá enn öðrum miðli... Miðli sem gefur út blað samheitt morgninum... Við erum ekki ákrifendur, en svei mér þá ef við eigum ekki skilið eitt vikulegt blað af slúðri um hverjir voru hvar og í hvernig nærbuxum, ásamt tilheyrandi auglýsingabæklingum... Til viðbótar kom Útvegsblaðið (I kid you not) því hvar væri ég sem Íslendingur ég væri ekki með fingurinn á púlsinum á sjávarútveginum...
Varð ég því að hringja í þá og láta kyppa mér af útburðalista þeirra líka...
Þá er þetta vonandi búið... eða hvað...
Þið verðið bara að bíða spennt og ég skál láta ykkur vita um leið og eitthvað kemur... Næsti sökudólgur verður pottþétt Vesturbæjartíðindin, KR blað og lausnargjaldsbréf... "Við höfum stolið brandara frá þér. Borgaðu 100.000 í ómerktum seðlum og þú færð hann aftur"... Doldið dýrt en kannski get ég notað afsláttarmiða sem ég fæ í lúguna... "2 fyrir 1 af lausnargjöldum. Borgaðu bara fyrir dýrara lausnargjaldið. Gildir bara á mánudögum, miðvikudögum og hlaupaári"...


miðvikudagur, ágúst 29, 2012


Í Ameríkunni stóru var verslað slatta enda úr svo miklu að velja... En þar sem vanalega fara flestir peningar mínir í kvikmyndir, þá var öðruvísi í koppinn búið í þessari ferð því ég safna nú myndum á BluRay en spilari minn styður ekki ameríska diska... Nú voru góð ráð dýr (samt ódýr því ég sparaði mikið á að kaupa ekki BluRay fjall)... Lét ég þá eftir mér í staðin að kaupa tvö borðspil... Ætla ég að lofa þau eða lasta eftir að hafa brúkað þau í góðum félagsskap...
Það fyrra sem ég keypti og prufukeyrði um helgina var Battlestar Galactica... Sporðspil nefnt og skapað í höfuðið á vinsælli geimsjónvarpsseríu (sem var endursköpuð af síðri 80's kvikmynd)...
Þetta spil er frábrugðið mörgum að því leiti að spilararnir vinna saman (sem mannverur) við að vinna spilið sjálft (sem vondu ljótu vélmenna skúrka kallanir)... eða svona að vissu marki... Málið er að eins og í sjónvarpsseríunni, þá er svikari á meðal vor... Hann þykist vera að hjálpa en er á sama tíma með áform um að tortíma okkur saklausu mannverunum... Það skemmtilega er að hann er kannski ekki á móti okkur allan tíman, því þegar spilið er hálfnað gæti bandamaður skyndilega orðið svikari og maður hefur enga leið til að vita hver það verður...
Við lentum til dæmis í því að í upphafi var engin svikari og fyrir vikið var erfitt að treysta nokkrum því allir voru jafn saklausir... Svo um miðbik spilsins snúast tveir, þannig paranójan verður mikil á að vinna með öðrum... Þá er bara vissara að koma því liði sem maður grunar í fangelsið áður en þeir geta valdið nokkru tjóni...
Hjá okkur var ég frekar snöggur að sjá í gegnum einn samspilara og var ég að fremsta megni að reyna sannfæra hina um að hjálpa mér að smella honum í steininn... Svo ákafur var ég að flestir töldu mig vera svikara sem var bara að sölsa undir mig völdin hans, því ef hann færi í steininn tæki ég við störfum hans...
Það fór svo að mér tókst að koma honum í steininn, en það hafðist bara með hjálp hins svikarans... Hann vissi nefnilega ekki hver væri svikari heldur og hennti hann því óvart sínum bandamanni bak við lás og slá...
Það gerði það hinsvegar enn erfiðara fyrir mig að spotta seinni svikarann... og ljóstra hann seinna sjálfur upp um sig til að geta gert meiri skaða á okkur hin... En sem betur fer vorum við það langt komin á leið okkar til sigurs að mannfólkið hafði betur að lokum og vélmennin urði að éta það sem úti frýs... ef vélmenni éta á annað borð...
Ég held samt að við verðum að taka annað spil fljótlega meðan minningar af fyrra kvöldinu eru enn ferskar í minni... Voða erfitt að dæma svona flókið spil af fyrstu spilun, þar sem þetta gékk frekar hægt og rólega... En engu að síður var þetta blússandi skemmtileg stund og mæli ég með þessu(nema ég sé að plata í anda spilsins (Múhahahahahaaaa)...


þriðjudagur, ágúst 28, 2012


Það eru til tveir skólar af hugsun varðandi steggjanir... Annarsvegar eru það gaurar sem sjá steggjun sem síðasta stóra djamm steggsins og leggja sig allan fram við að gera daginn sem ógleymanlegastann fyrir stegginn... og eru aðrir sem sjá steggjun sem einhveskonar busun eða álíka og leggja sig allan fram við að pína stegginn og þjarma á honum...
Ég sem betur fer tilheyri fyrrnefnda hópnum og hef bæði tekið þátt í og upplifað æðislegar steggjanir...
Ég varð hinsvegar vitni í fyrsta sinn af seinni tegundinni af steggjun þegar video frá svoleiðis degi var spilað í brúðkaupi um helgina...
Það fyrsta sem var gert var að skella stegginum í vax... það þarf nú ekki að fara neitt ítarlega í hvar á þægindamörkunum svoleiðis meðferð er á sársaukaskalanum... Síðan þegar það er búið er sturtað og sturtað dry vodka í stegginn og svo fariðí sjóstangaveiði... Þar er sturtað meira í kauða þannig hann drepst áfengisdauða og sefur af sér veiðina inní kátettu... Þegar þeir koma tilbaka er hann vakinn með tveimur föstum lófasláttum og svo hent fram af bryggu...
Þar endar myndbandið... Varla komið langt framyfir hádegi og hva... Don't know... Gafst steggurinn upp og fór heim...?
Maður vildi nú lítið kanna staðreyndir málsins... Maður sá bara bugaðan mann sem þakkar fyrir að hann þurfi ekki að ganga í gegnum svona aftur... og þá ef bara pælingin... næst þegar hann steggjar, verður hann þá að hefna sín og steggja hina svona harkalega...? Svona verður þetta vítahringur þar sem heill hópur herramanna kvíður þessum degi sem ég og félagar mínir geta ekki beðið eftir að upplifa...
Eftir síðustu steggjun hjá okkur Durgunum kom að mér vinur steggins úr öðrum vinahóp og sagðist óska að við þekktum hann betur svo við mættum steggja hann frekar en hans vinahópur... Hann hefur séð skuggahliðina og langaði ekki að stíga þangað...
Ég allavega vona að okkar Durgur, vinur hans, stýrir steggjun þess manns til betri vegar... enda er góð steggjun gulli betri...
Í raun furða ég mig á því hvað þeir eru fáir af Durgunum eru búnir að gifta sig... Þeir ættu bara að drífa sig í þessu steggjunarinnar vegna... brúðkaupið er bara bónus...


mánudagur, ágúst 27, 2012


Díses... Maður er svo óduglegur að blogga að bloggverðir atburðir hrannast upp... Tja, ekki að þetta eru stórmerkilegir atburðir... Ég í raun blogga af challenginu að gera eitthvað læsilegt úr hversdagslegum viðburðum...
Tökum badmington sem dæmi...
Undir eðlilegum aðstæðum væri þetta bara 4 sveittir karlmenn á miðjum aldri að veifa priki með sverum enda að fiðruðum bolta en með töfrum orðanna breytist badmington í styrjöld hugrakka riddara sem hver mundar sínu sverði að fljúgandi vargi í von um að planta honum á landsvæði óvinarins... Ég var meira segja vopnaður nýju sverði... Dró hann úr steini útivistaverslunar í nýlendunni fyrir vestan og kom með heim yfir hafið...
OK, þannig síðasta mánudag vorum við þarna, nokkrir sveittir riddarar á miðjum aldri að veifa sverðum... OK, ekki nokkrir... Við áttum að vera nokkrir en misskilnungur gerði okkur undirmannaða... 5 manns mættu með badmington gírinn í vinnuna, en einn bakkaði út sem var síðastur inn svo við værum heilög ferna... Hinsvegar festist einn úr fernunni (skárra en að festast í fernu (maður gæti drukknað)) í vinnunni þannig við vorum bara þrjú að spila... og svei mér þá ég hef sjaldan svitnað svona mikið á ævinni eins og þegar maður lendir einn á móti tveimur... Það er bara eins og tveir blóðþyrstir kettir að leika sér við hreifihamlaða mús yfir kjörþyngd... Sem betur fer
stóð sú slátrun ekki lengi og gat maður aðeins sleikt sárin þegar maður endaði í tvímennignsliðinu á móti einstaklingi...
Það gékk samt ekki alltaf vel heldur því hinar manneskjunar eru svona svakalega góðar í sportinu... Annarsvegar var þarna yfirljósameistainn í Sagafilm... Alveg viss um að hann eftur æft badmington í einhver ár... Og svo var þarna fjármálastjórinn... og hún kenndi badmington á tímabili... Þeim tókst báðum í sumum tilfellum að vinna sinn einstaklingsleik á móti tveimmeningum...
Það er samt spurning hvort maður var að leggja sig allan fram... Maður vill nú ekki fara ílla með manneskjuna sem sér um að borga manni launin...
En mikið er þetta nú skemmtilegt sport... Nú er ég búinn að vígja nýja spaðann... Ekki komið með nafn á hann... Keypti tvo og ég þekki þá ekki í sundur... Spuring þá hvort þeir fá ekki tvímeningsnöfn... Skapti og Skafti... Það passar vel því spaðar eru jú með sköft er það ekki...? Þá veit ég að ég er alltaf að spila með Skapta eða Skafta... Brilli tilli (önnur fín nöfn)...


föstudagur, ágúst 24, 2012


Vildi ég gæti samræmt betur tíðnina á blogginu mínu... Er í dag að fara tala um eitthvað sem ég ætlaði að gera á mánudaginn...
Þetta er í raun framhald af mennignarnæturblogginu...
Vildi bara segja í stutt máli hversu fáranleg staðsetningin á flugeldasýningunni var...
Eru ekki allir á risa tónleikunum á Arnarhól...? Stoppa ekki tónleikarnir sérstaklega á slaginu sem flugeldarnir fara af stað...? Er þá ekki brill að þeim að smella flugeldasýningu bak við Seðlabankann þar sem engin sér...?
Held á næsta ári verður flugeldasýningin inní Kringlunni...


þriðjudagur, ágúst 21, 2012


Afskaplega er langt síðan maður hefur gert "Hvað ég gerði um helgina" pistil... Enda yrðu þeir flestir svo afskaplega einhæfir á síðustu misserum og eflaust bara upptalning á lúrum sem maður tók...
En þessi helgi var öðruvísi, því það var jú Menningarnótt... Ég vissi ekkert af því fyrr en of seint, því vanalega er Menningarnótt tveimur helgum eftir Gay Pride en núna var hún klesst við þannig það var varla búið að sópa upp öllu glimmerinu áður en aragrúi ölumbúða stráðist yfir strætin...
Þetta varð líka til þess að ég lofaði mér í síðdegis útsendingu sem ég sá eftir allan daginn...
Förum fyrst samt yfir það sem var ekki vinna...
Dagurinn byrjaði gegn mínum vilja 08:30 þegar tónar "The Final Countdown" var blastað inn um svefnherbergisglugga minn... Ekki einu sinni, heldur samfleytt í 4 klst. meðan Reykjavíkurmaraþonið stóð yfir...
Því var upplagt að flýja íbúðina og röllta í miðbæinn þar sem við gripum með okkur fjall af sushi og áttum yndislega lautarferð við Tjörnina...
En yndislegheitin stóðu ekki lengi því ég varð að æða í vinnuna... Myndblanda úrslita bikarleik karla... KR - Stjarnan... Eftir 100 ár þegar sagnfræðifólk les bloggið er eflaust öllum sama hvernig leikurinn fór þannig ég tala ekkert um það... Allir vilja hinsvegar vita hvað gerðist næst...
Eftir að hafa snætt í faðmi fjölskyldunnar alþjóðlegan kjúklingarétt úr aldagamalli uppskrift (KFC) þá var tími til að bregða sér aðeins aftir í miðbæinn enda hefur Menningarnótt alltaf átt hlýjan hjartastað hjá mér...
Ég og Ingi trítluðum (svo léttfættir) að Arnarhóli þar sem biðu okkar fleiri fagrir fýrar... Þar áttum við góða tíma um drykklanga þar til minnst trítlaði aftur heim á tveimur jafnfljótum til að brenna kaloríum þessa tveggja bjóra eða svo sem var innbyrgt um nóttina...
Þakka ég öllum þeim sem tóku þátt í kvöldstundini...
Svo var bara sunnudagur í sárum því maður er ekki eins ungur og maður var en svei mér þá þetta var þess svo virði...
Ég held ef maður veit hversu slæmur næsti morgun verður, þá nýtur maður kvöldsins enn betur...


fimmtudagur, ágúst 16, 2012


Kallinn bara kominn úr sumarfríi...
Hefði verið gaman að blogga en það bara gafst ekki tími, svona á milli þess sem maður túrhestaðist, verslaði eins og vitleysingur og keyrði 2,857 km um miðsvæði Bandaríkjanna og Kanada...
Ég mun hinsvegar bæta upp bloggleysið með ferðasögu... og það verður ekki langt í hana... Mun rita hana niður meðan ferðin er enn í fersku minni... Man hana eins og hún hafi gerst í gær... Gærdagurinn var hinsvegar frekar hefðbundinn og ég man hann eiginlega eins og hann hafi gerst í síðasta mánuði...
Ég man svo einn dag í síðasta mánuði eins og hann hafi gerst á morgun og býst ég við svaka Deja Vu þá...


Home