Lífið, heimurinn og allt saman

mánudagur, maí 31, 2010


Svona á maður að halda Eurovision partý... Drekkfullt af fólki og stemning á háu plani... Það var í raun varla pláss í stofunni fyrir alla og var kominn röð fram á gang til að kíkja inn á útsendinguna...
Það er komin núna smá umræða um að kanna breytingu á "stauprefsingum" í Eurovision leiknum þar sem 39 lönd gefa stig... Það var hleypt af fleiri skotum en skotglaður Skoti með hríðskota skotvopn... Afleiðingarnar voru skrautlegar og gamli pízzufrasinn "hver ældi á flatkökuna" var tekinn of bókstaflega þarna í lokinn af ónefndum aðilla sem fann ekki snakkskál tímanlega í þetta sinn... En maður hlær bara að svona og vona ég bara að allir hafa skemmt sér eins vel og ég...
Þrátt fyrir mikla gleði ætla ég samt að afsala mér Eurovisionpartýhaldarahattinum til hvers þess sem telur sig verðugan að taka við... 4 ár í röð er fín tala, þannig nú skal færa gleðina fyrir næsta ár... En þangað til... Áfram Ísland...


fimmtudagur, maí 27, 2010


Þá er maður búinn að kaupa sjónvarpsborð sem lúkkar betur með nýja sjónvarpinu... Eftir veskið fékk nokkur væg hjartáföll í nokkrum húsgagnabúðum fundum við akkúrat það sem við þurftum í Rúmfatalagernum... Hófst ég svo til handa að henda þessu saman...
Þótt Rúmmófatólagó er með svipað fyrirkomulag og Ikea hvað varðar heimasamsetningu, þá er hráefnið frá Rúmfatalagernum ekki eins þjált að vinna með... Til að byrja með virðar skrúfurnar vera úr eggskurn, því þær eru svo brothættar... Svo virka ekki allir skúfgangarnir nema maður noti hamar... Loks vill rúmfatalagerinn að maður klári ytri lag mublanna fyrst, þannig maður verður að skríða um á gólfinu í kamasutra stellingum til að komast inní kverkarnar að klára verkið...
Í þokkabót drekka þeir pakkningum í frauðblasti sem molnar þegar maður horfir á það, og svo er allt stöðurafmagnað að ég var þakinn á no time eins og ég hafi lennt í snjóstormi...
En saman fór sjónvarpsskápurinn og prýðir hann stofuna alveg prýðilega... Nú þarf bara að ferja út öll gömlu húsgögnin og gera húsið í lag fyrir helgina... Samt, skil ekki af hvejru maður tekur alltaf svona rosalega vel til fyrir partý... Maður fær að njóta þess í 5 mínútur og svo verður ekki hreint fyrr en 5 mínútur fyrir næsta partý, hvenær sem það nú verður...


þriðjudagur, maí 25, 2010


Svakalega brenndi ég mig á trampólíni um helgina... Skutlaði mér framaf nokkrum tröppum inná trapólínið og bremasði með olnboganum... Eins og einhver hafi tekið sjóðheitann ostaskerara og rennt honum upp eftir handleggnum á mér... Fyrir vikið er nær ómögulegt að koma sér almennilega fyrir... Get ekki hvílt olnbogann uppá borði eða kjöltu... Svo er ekki hægt að sofa nema í einni stellingu... 69... Nei joke, verð að liggja á bakinu með hendina uppi loftið eins og ég sé að veifa eftir leigubíl... Enda er röð af þeim fyrir utan svefnherbergið...


Loksins kom að því... Stórfrækna félagið Bandífélag Reykjavíkur hirti málmkennd verðlaun á móti... Mótið var bikarmót, og málmurinn brons... Eftir hluta úr sólarhrings baráttu uppskáru þeir það sem sáðu á öllum löngum og ströngum æfingum ársins... Því ver og miður gat ég ekki tekið þátt í mótinu með þeim þar sem ég var staddur á Höfn í jarðaför (einstaklega falleg í kirkjugarð með útsýni yfir sjóinn), en af hugulsemi var tekin til hliðar ein medallía fyrir mig... Ég meina allstaðar myndi leikmaður sem spilar allt árið en missti af síðasta leik (út af óumflýjanlegum ástæðum (svo sem meiðslum og jarðaför) fá medalíu, enda hluti af liðinu... Það væri jú bara hallærislegt að einhver myndi virkilega nöldra yfir að forfallnir fá ekki medalíu, en sem betur fer leynist engin svoleiðis félagsskítur innan BR, enda liðið sérvalið af vinskap og sammrýnd hópsins (plús nokkrar ofur skyttur í afleysingjum í þetta sinn)...
Þannig BR, til hamingju með okkar áfanga... Leiðin liggur bara upp á við (nema þegar hinir pressa, þá verða allir að bakka í vörn)... Áfram BR...!!!


föstudagur, maí 21, 2010


Helgin að sigla rólega í garð, með aukafrídegi á mánudegi þökk sé hvítum sunnudegi... Ég hefði getað tekið mér frí í dag en ég ákvað að gera mér sér ferð í vinnuna til þess að ná vikulega föstudags hádegismatnum hérna... Því ver og miður var það ekki ferðarinnar virði því snæðingurinn að þessu sinni var grænmetissúpa... Lít ég út eins og tannlaus kind...?
Jújú, súpan var svo sem ágæt á bragðið, en það byrjar engin helgi á því að lepja litað vatn með linsubaunum... Þarf greinilega að pulsa mig upp á leiðinni úr bænum...
Góða langa helgi...


fimmtudagur, maí 20, 2010


Var í frábæru Pre-pre-Eurovision partý í gær í góðra vina hóp... Þarna var ég, Haukur, maðurinn hennar Önnu, pabbi Matta, keppandi úr Wipeout, pabbi Lillian Líf, leikmaður BR nr. 8, fyrrverandi Íslandsmeistari í foosball, heimsmeistari i rifjaeldamennsku, núverandi sigurvegari Ölympics og fleiri alíka skemmtilegir og myndarlegir gestir...

Við hlustuðum fagmennlegum eyrum á hvert einasta land og dæmdum hlutleysislega... Eyddum svo góðum klukkutíma í Excel í gagnavinnslu á stigum, frá besta og versta lagi, til mesti munur á smekk laga, vægið meðaltal, frestar prímtölur...
Fór svo restin af löng ukvöldi í afspilun á Eurovision slögurum og Eurovisionpartý sögunum...
Ég verð að viðurkenna að lögin í ár voru slakari en vanalega, en uppúr stóð austantjaldslandið Albanía fyrir mér... Það var ekki valið úr stafrófsröð...


miðvikudagur, maí 19, 2010


Ég þarf að fara með hjólið mitt í stillingu... Það er eitthvað vanstill... Held andlega, því í gær þá tók það upp á að tæta sjálft sig í sig, frekar en buxnaskálmina mína... Var í makindum að hjóla niður brekku og skipta um gír, og þá bara "nom, nom, nom" og stórir plast bitar skyrpast út frá keðjunni... Svo neitar hjólið að fara í efsta gír, og þegar það loksins tekst skiptir hjólið sér alltaf aftur niður haldandi að ég taki ekki eftir því... Loks eru bremsurnar líka á mótþróaskeiðinu, en það er hægt að laga þær með smá herðingu...

Maður verður að taka á þessum agavanda hjólsins snemma, því annars breystast pirruð hjól í reið hjól...

þriðjudagur, maí 18, 2010


Maður er næstum því kominn með reykeitrun... Það sauð nefnilega svo svakalega á heilahvelinu á ljósku (í raun þá bara "hvelinu") fyrir framan mig í röð áðan...

Það var ekki eins og væri að reyna muna kennitölu sína eða skóstærð... Hún var í röðinni á Ricky Chan (þeim AWESOME! stað (namm!)) að reyna muna hvað var svona gott síðast þegar hún kom þarna... Þegar hún mundi það ekki, spurði hún afgreiðsludömuna hvort hún myndi það nokkuð... Afgreiðslukonan kom auðvita af fjöllum (þaðan sem röðin bak við ljóskuna var byrjuð að myndast til)...
Svo spyr ljóskan hvort hún má smakka á einum réttinum... Afgreiðsludaman dýfir plast skeið í sósuna og réttir henni... Ljóskan skellir skeiðinni uppí sig og sýgur og sýgur í heila eilífð eins og hún væri að fá borgað fyrir það (áunninn atvinnuvani eflaust)... Loksins dregur hún sundursoguð skeiðina úr kjaftinum segist ekki muna hvort þetta sé rétturinn... Hún ætlar að fá sér bara núðlur í staðinn... "Má ég ráða hvoru núðlutegundina ég fæ?" spyr hún spekingslega, því við öll vitum að aðeins annar núðlurétturinn er fyrir viðskiptavinu ein hin rétturinn er bara til skrauts...
Og þetta er ástæðan fyrir ég kom seint úr mat...

föstudagur, maí 14, 2010


Oh... Maður var of upptekinn að vinna af sér fimmtudaginn til að fá örugglega frí, að ég stein gleymdi að vinna af mér föstudaginn og taka fjagra daga pakka á þetta...

Þetta er samt rólegur dagur og spurning hvort maður tekur alla 8 tímana... Í þokkabót verður þetta brotið upp með yndislegum hádegisverði á Vox, þar sem mun stór sjá á fiskistofni landsins út frá sushi neyslu minnar og fjölskyldumeðlima... Namm...

miðvikudagur, maí 12, 2010


Önnur útsending í gær í boltanum... Vorum stödd í boði Fram á Laugardalsvelli en ekkert hugsað um okkur tökuliðið... Ég varð meira segja að véla úr þeim að opna salerni til þess að tæma blöðruna... Ekkert vera en að vera í spreng í langri útsendingu... Svo var ekkert klósett opið nema lengst í hinum enda húsinu... Þannig í þriggja mínútna auglýsingahlé, varð maður að spretta, skvetta, bretta, sletta, næstum detta og spretta tilbaka... Maður skutlaði sér á myndmixer borðið og rétt náði að setja út rétta myndavél þegar við komum inn úr auglýsingum...

Aldrei lærir maður að vera ekki að þamba vökva í vinnunni...

þriðjudagur, maí 11, 2010


Það tístir svo svakalega í hjólinu mínu, að það er sem ég sé knúinn áfram af músum... Það er bara vitleysa... Það er hálfur her hljóðlátra hamstra sem sér um það...

Best að taka fram smá WD-40... Á þannig heima... Enda er sagt að maðurinn þarf bara tvö verkfæri... WD-40 og "duct tape" (silfrað sterkt límmband)... Ef það hreyfist ekki en á að gera það, notið WD-40... Ef það hreyfist en á ekki að gera það, notið duct tape...


Sumarið er formlega byrjað... Það er ekki veðrið sem setti það af stað, heldur fótboltinn... Ég er sjálfur ekkert mikið fyrir íslenskann fótbolta, enda ber ég enga hagsmuni um hvort einhverir rúmmlega ellefu manns sigra eða tapa gagnvart öðrum rúmmlega ellefu manns...

Fótboltaútsendingar eru hinsvegar sumarvinna mín, þannig með fyrsta leiknum í gær er komið sumar... Woohoo...
Fyrsti leikurinn var á Valsvelli og verð ég að segja árið byrjar vel hjá þeim... Sko, byrjar vel fyrir okkur, hjá þeim... Bara ef allir heimavellir væru svona umönnunarsamir um hagi upptökuliðsins... Það var kaffi, kex, súkkulaði, gos og pízzur fyrir crewið... Fyrir vikið fór leikurinn aðeins 2-2, því við í þakklætisskyni sýndum ekki síðustu þrjú mörk FH í sjónvarpinu, þannig þau teljast ekki með...
Í kvöld er leikur á heimavelli Fram... Vonandi vita þeir af þessu fyrirkomulagi...

mánudagur, maí 10, 2010


Þá er matargagnrýnin komin... Rifjaritgerð um grísagottið á Hamborgarafabrikkinnu...

Rifin á Brikunni voru fín... en ekki superfín... Þau voru bragðgóð, laus á beinunum, en kannski of snyrtileg... Þau voru voða þétt í sér og fitulaus... Eins og skorin af anorexísku svíni...
Maður var ekki einu sinni kominn með subbuskap uppá olnboga, þannig það þurfti bara tvær blautþurrkur til að hreinsa mig, þrátt fyrir að vera alskeggjaður með sósusögandi mottu...
En kokkarnir klikkuði ekki á burgerunum, og það verður það sem ég sækist þangað í næstu skipti...

föstudagur, maí 07, 2010


Hlakka svo til að næra mig á morgun, þótt ástæðan fyrir betri næringu er dökku skýji huluð... Við Durgarnir erum nefnilega að fara hittast til að kveðja einn Durg sem er að flýja land... Hann ætlar að leita grænna grasa í Noregi um sinn (áður en grænu grösin verða grá úr gosösku okkar (Sorry Norway))...

Staðsetningin er Hamborgarafabrikkan og er fá þeir núna loks tækifæri til að sanna sig... Málið er að ég dæmi alla veitingastaði út frá tveimur réttum... Kjúklingavængjum og grísarifjum... Ég smakkaði vængina síðast og þeir voru fínir... Engar sprengjur en vel eldaðir þannig kjötið var laust á beinunum, eitthvað sem margir klikka á...
Núna er hinsvegar stóra prófið... Sko, ég er ekki að segja ég geri sjálfur bestu svínarif í heimi... en það er bara vegna þess að allir aðrir segja það, þannig ég þarf þess ekki... Þetta verður eins og að taka ökuskirteini með Schumacher sem prófdómara... Þannig þeir þurfa að kunna sitt fag ef þeir vilja blessun mína...
Ég bara vona að kveðjutár Durgana salta rifin ekki of mikið...


Ætli það sé einver markaður fyrir gamallt en gott túbusjónvarp sem ég þarf að losa mig við...? Í raun gæti ég alltaf átt það sjálfur... Sett inní bílskúr og geymt þar til ég flyt í stærra hús og svona... Látið börnin fá það þegar þau koma (NEI, engin eru á leiðinni og við erum ekkert að fela, takk fyrir að spyrja enn og aftur)...

Það væri hægt að setja gamla sjónvarpið bara við hliðina á nýja til þess að sýna hvað munurin er svakalegur... Já sæll, eða hafa gamla sjónvarpið við hliðina á nýja til þess að horfa á hefbundna dagsskrá meðan maður blastar bíómyndum eða tölvuleikjum á nýja samtímis... Tvö sjónvörp í einu... Dirfist mér að dreyma...

fimmtudagur, maí 06, 2010


"Hjólað í vinnuna" dagur 2 byrjaður.... Ég blotnaði meira í dag en í gær (that's what she said)... Ég held ég þarf að fá mér bretti á dekkinn, því það er eins og ég standi inní miðjum gosbrunn um leið og það er smá væta á jörðinni...

Það rignir ekki bara vatni á mig, því í gær fann ég laumufarþega eftir hjólferðina... Ég var kominn heim uppí sófa, teygði úr mér og setti hendur bak við haus... Fann þá eitthvað slímugt í hárinu... Haldiði ekki að ofurhuga áðnamaðkur hefur teikað dekkið og slengt sér uppí loft og lennt í hárinu á mér... Ullabjakk...
Fór allavega út í morgun með húfu á höfðuni og hún er sem stendur orma auð...
En svakalega er maður eitthvað meðvirkur í ár... Maður safnaði skeggi fyrir "Mottu mars", maður hjólar í "hjólað í vinnuna" átakinu, svo mun maður eflaust láta leiðast í næsta svona... Af hverju er ekkert svona "Sófaseta í september" eða álíka... Ég er allavega skuldbundinn núna til þess að styðja Oktoberfest með þessu mynstri...

miðvikudagur, maí 05, 2010


Tók þátt í morgunn í vinnustaðaleiknum "Mætti regnvotur í vinnuna", öðru nafni "hjólaðu í vinnuna"... Gaman að sjá að íslenskir ökumenn betra ennþá jafn litla virðingu fyrir hjólreiðamönnum eins og hjólreiðakeðja ber fyrir buxnaskálmum... Alltaf að hjakkast á þeim...

Ég gat samt hengt flest fötin upp til þerris... Svo þorna buxunar smá saman... Tja, allstaðar nema á bossanum... Ég vinn sitjandi þannig það fær ekkert að viðra um afturendann... Hann er með innbiggða hárþurrku en er að vísu eitthvað loftlaus í augnablikinnu... Kannski fær hann gott eldsneyti í hádeginu...

þriðjudagur, maí 04, 2010


Þá er ég kominn á kaf í klipp á matreiðsluþáttum... Fín tilbreyting við allan hamaganginn úr Wipeout og Skólahreystisklippunum... Núna er bara og léttlogaðar lundir og hægeldað hænsi að malla á skjánnum... Maður er samt alveg vitlausu megin við framleiðsluferlið í þetta sinn... Tökumennirnir koma pakkasaddir ropandi tilbaka meðan ég rétt næ að sleikja smá sósu af klístruðu spólunum...


mánudagur, maí 03, 2010


Ekki láta ykkur bregða en hér er að mér sýnist að koma tvö blogg á sama degi... Awesome...

Sko, mins var að fá sér sjónvarp... Ég meina "sjónvarp" eins og gaur sem fær sér Ferrari sagðist vera fá sér "sjálfrennireið"...
Þetta er svo glæsilegt að ég er enn að þrífa blettina úr sófanum eftir nokkra vel impressed áhorfendur...
Sjónvarpið er samt aðeins og gott og innihaldið sem það varpar sjónum okkar og er það því algjör nauðsyn að vera með HD (í raun HS (háskerpa á íslensku)) myndlykil til þess að ná HD efni á skjáinn... Vill svo mer og viður til að það eru engir HD myndlyklar til lengur... Allir uppseldir hjá Vodafone, eina aðillanum með þá... Ég spurðist fyrir hjá þeim og það var ca. hálfur mánuði í þá fyrst... Svo hringdi ég aftur í dag og þá segja þeir að þeir verða ekki komnir fyrr en í haust...!
Halló... Í haust...? Vita þeir ekki að stærðsti HD viðburður ársins er í sumar... Heimsmeistasrakeppnin í fótbolta.... HMHD...!
Á ég virkilega að horfa á leikina eins og einhver hálftæknilamaður hellisbúi... Ég vill ekki bara sjá tölurnar skýrt á treyjunum... Ég vill sjá þvottaleiðbeiningarnar á miðunum í hálsmálinu...


Mmmm, ahhh... Þá er maður kominn úr 4 mánaðar frí... Ekki það að ég þyrfti þess... Þetta er í raun stór skandall... Svona Tiger Woods skandall... þá á ég ekki við "119 hjákonur" skandalinn, heldur "að taka sér pásu og koma til baka sökkandi í gólfi" skandalinn... Vonandi verður þetta ekki svona hjá mér... Vera blogglaus í 4 mánuði og ekki kunna skrifa gott lengra...

Vá, hvað er samt gott að horfa aftur á þennan brúna rammaðan reit og sjá hann fyllast upp af orðum... Kaffikanna, hlaupabóla, fyrirrennari, þverstæðukennt... Nice...
Framundan er tiltekt á síðunni... Spurning um að fríska uppá lúkkið... Comment kerfið gamla er víst búið að leggjast niður þannig ég verð að setja upp síðu með innbyggðu commentkerfi... Svo eru allt of margir dauðir bloggarar... Kenni Facebook og Twitter um... Statusupdate er ekki blogg...!
Svo ætla ég að pósta Wipeout ferðasögu minni bráðum... Spurning um að dríga sig í því, því það tekur athygglina af slakari ritgæðunum meðan ég kem mér aftur í blogggírinn...
En núna er ég semsagt formlega kominn aftur... Woohoo.... En er einhver lengur að fylgjast með blogginu...?

Home